Varmilækur Hrossartæktarbú
Varmilækur Hrossaræktarbú - Icelandic Horse Breeding Farm - Icelandic horses for sale - Meet The Icelandic Horse.

07.06.2011 20:35

Kynbótasýningar að baki.

Nú er komið fram í júní og við tekur nýr kafli, kynbótasýningar að baki, ferðamennirnir farnir að heimsækja okkur og Lnadsmótið ekki langt undan. Færi ykkur smá fréttir og fer aðeins yfir brot af vangeveltum um kynbótadóma.
Á þessari mynd eru þeir félagar Björn og Kunningi á yfirlitssýningu á Vindheimamelum 4. júní sl.



Kunningi er 5 vetra stóðhestur undan Kilju og Tind frá Varmalæk. Hann hlaut 1. verðlaun á kynbótasýningu sem haldin var á Vindheimamelum nú um mánaðarmótin. Fyrir sköpulag hlaut hann 8.18 og hæfileika 8.0 og i aðaleinkunn 8.07. Hann mun taka á móti hryssum heima á Varmalæk í sumar.  Kunningi náði ekki inn á Landsmót, vantaði nokkrar kommur og að virðingu við hann var ákveðið að láta staðar numið og sækja ekki fleiri  sýningar til að freista þess að ná í þær kommur sem upp á vantaði á þessari sýningu.
Kunningi er  mjög líkur föður sínum og sækir líka góða eiginleika í  móður sína og hefur ræktandinn og eigandinn Björn  haldið því fram að hann væri bara betri og er það ekkert of sagt.  Kunningi er alhliða hestur með allar gangtegundir góðar, á eftir að bæta sig mikið, er vel viljugur með frábært geðslag og á vonandi eftir að sýna það og sanna í framtíðinni.  Myndir og myndband af Kunningja verður sett inn á síðuna bráðlega.

Hér eru þau í dóm Kelling frá Varmalæk Bjössi, hún er undan Kengálu frá Varmalæk og Illingi frá Tóftum.

Það eru nú ekki alltaf jólin í hestamennskunni og fór ekki vel hjá þeim. Bjössi sýndi hana í fyrra og fékk hún góðan dóm 8.23 í aðaleinkunn og átti að fara beint í ræktunarstarfið, hún kom hinsvegar ófengin frá graðgesti og var þess vegna inni í vetur og ákvað Bjössi að sýna hana aftur, hvern langar ekki með sinn glæsta grip á Landsmót? Í dómi missti hún skeifu og fór því  ekki vel. Skaðinn var skeður og tókst ekki að ná þeim árangri sem til stóð. Já þetta var frekar dapurt en svona er þetta bara.  Sorgir og sigrar. Dagsformið ræður, það rennur blóð í manni og hesti. Kelling er jafngóð og fyrr, hún á sinn besta dóm og á vonandi eftir að skila hrossaræktinni á  Varmalæk góðum árangri. Hún er eina hryssan sem til er unda Kengálu og kemur í hennar stað.  Hún er með 8.44  fyrir sköpulag, hækkar frá í fyrra fyrir prúðleika. Glæsi hesturinn Hófur er sammæðra henni.

Hófur frá Varmalæk og Sigurður Sigurðarson

Nokkur önnur hross voru sýnd og fljóta  myndir af einhverjum þeirra  með þessum pistli sem saman stendur af viðburðum og hugleiðingum mínum. Ég  hef starfað við hrossarækt einungis í 10 ár, svo lengi lærir sem lifir.

Næsta mynd er af henni Mirru frá Vindheimum undan Tind. Hún vakti arhygli fyrir að hún fékk 9.5 fyrir höfuð. Falleg hryssa með 8.20 fyri sköpulag, lækkaði fyrir sköpulag frá í fyrra? var aðeins bólgin á örðum fæti...jájá svona er þetta...lækkaði líka fyrir tölt...



Eftir að hafa horft á sýningar á hrossum í allskonar veðri, allt frá logni og sól upp í rigningu, haglél og rok í nær viku skal viðukennt að undirrituð er  nú frekar hugsi, ekki endilega yfir veðrinu heldur kynbótadómunum. Yfir 200 hross voru sýnd á fimm dögum og fylgdumst við mikið með.   Mikilvægt fyrir ræktendur að fylgjast vel með, það finnst okkur allavega. Allt í senn var þetta skemmtilegt og sorglegt .  Frábærir dómar niður í  ömurlega  dóma og erfitt að skilja allt. En mér er sagt að svona hafi þetta alltaf verið og muni verða svona.
Fólk er búið að vinna ræktunarstarfið, ala upp og temja einstaklinginn, mætir með hann í dóm  og spennan er ólýsanleg. Mun einstaklingurinn standa sig eða njóta náðar dómara? hafa þeir smekk fyrir einstaklingum og tekst knapanum á laða það besta fram? Verð að viðurkenna að sumt finnst mér einkennilegt og verð bara fá  að segja það.  Ætla ekki að deila á dómarana þeir eru ekki övundsverðir af vinnu sinni en þeim getur líka orðið á það er alveg ljóst.

Næsta mynd er af henni Dögg frá Goðdölum, Tindsdóttur úr ræktun Sigríðar Sveinsdóttur. Góð alhliðahryssa.


Já þetta hefur alltaf verið svona!!!  Hrossaræktendur mæta með hrossið í sköpulagsdóm, dómararnir hvísla sín á milli um sköpulagið sem er dæmt eftir eihverri formúlu og að sjáfsögðu smekk, það getur ekki annað verið Ekki er hægt að fá að vita sköpulagsdóm fyrr en hæfileikadóm er lokið. Mér finnst það afar sérstakst að á sömu sýningu skuli bara vera  hægt að velja um að fara með hrossið í fullnaðardóm eða bara sköpulagsdóm. Að fá ekki að vita sköpulagsdóm fyrir hæfieikadóm er í mínum huga afleitt.  Horssaræktandi ætti að eiga möguleika á að draga hross út úr dóm ef það er svo illa byggt að það eigi ekki erindi sem kynbótagripur. Auka kostnaður fyrirhöfn...

Þetta er hún Amber frá Varmalæk undan Kristal og Irmu frá sama bæ.


Amber er  4. verta og að mati ræktanda mjög efnilegt trippi, þess vegna fór hún í dóm. Sæmundur á Tunguhálsi hefur tamið hana í vetur og höfum við verið ánægð með hve vel hefur gengið. Ekki fór eins vel og til stóð fyrir dómi þó Amber og Sæmi gerðu sitt besta. Sköpulag 7.59 og hæfileikar 7.30. Tek Amber  sérstaklega fyrir sem dæmi til umhugsunar. Þó okkur þætti hún þokkalega byggð stóðst það nú ekki og ekkert við því að gera. Hún fór á öllum gangi í dóm og eigum við myndband af því. Fékk ekki skeiðeinkunn þrátt fyrir skeiðsprettina, sögð með brotið brokk sem ekki kom fram á myndbandi og fékk lítið fyrir það.  Getur verið að dómurum verði á?  Held að það geti alveg verið, þeir eru mannlegir. Ekkert hægt að gera, þetta hefur alltaf verið svona...  Hún hækkaði á yfirliti og fékk 6.5 fyrir skeið sem var öllu lakara en í dómnum, af sex hrossum á okkar vegum hækkuðu öll á yfirliti nema eitt þeirra og voru að okkar mati öll betri í dómnum, svona er þetta nú skrítið...


En auðvitað þykir hverjum sinn fugl fagur þótt hann sé bæði ljótur og magur  og er Amber í okkar huga frábær hryssa þrátt fyrir dóminn sinn... Hún var sú eina frá okkur sem fékk slakan sköpulagsdóm.
Hvernig skildi standa á því að með dómum skuli þurfa að fylgja athugasemdir sem eru allt að því  niðurlægjandi?  það hefur sennilega alltaf verið svoleiðis. Það er alveg stórmerkilegt að lesa suma dóma í Worldfeng. Oft er látið nægja að setja einungis tölur á blað en oft má sjá allskonar athugasemdir sem að mér finnst að mættu eiga sig en þetta er nú bara mín skoðun. Með fullri virðingu fyrir kynbótadómurum þá velti ég því oft fyrir mér hvort ekki sé stundum erfitt fyrir þá að dæma vegna vensla eða smekks fyrir ræktunarlínum.
 Jæja ætli það sé nú ekki komið nóg af vangaveltum mínum um kynbótadóma og læt ég þeim lokið að sinni. Héðan er annars allt gott að frétta, folöldin tínast í heimin þessa dagana, komnar fjórar hryssur og tveir hestar.
Hestur og hryssa undan Smára frá Skagaströnd svo eitthvað sé nefnt og læt í lokin fylgja hér mynd af hryssu undan Hvítserk frá Sauðárkróki og Tilveru frá Varmalæk.

Magnea

Flettingar í dag: 335
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 486
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 128985
Samtals gestir: 29789
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 09:31:34