Já í ljósi dreifingar skýrslu rannsóknarnefndarinnar góðu þá er mér enn ofar í huga en áður eftirlit stjórnvalda með sjálfsþurftarsauðfjárhobbýbúskapnum hér á bæ frá árinu 2001. Að sjálfsögðu gilda um þennan búskap lög og reglur sem þarf að framfylgja. Sagan sem nú er sögð ber oft á góma, að gefnu tilefni er er hún sögð hér í stuttu máli.
Björn seldi greiðslumark sitt og undirritaði bindandi samning við landbúnaðarráðherra þar um og hafði eftir það , eða í upphafi á vetrarfóðrun 10 gullfallegar alhvítar kindur. Enginn hrútur, sæðingar voru málið. Ekki vildi nú betur til en að þrjú lömb litu dagsins ljós að vori og lítið að hafa í soðið. Gripið var til þess ráðs í kjölfar "hrunsins" að setja á alhvítan hrút , eitt af lömbounum sem fæddust og nota gamla lagið, það er jú ræktunarmarkmiðið að rækta alhvítar kindur (hyrndar). Vorið eftir að hrúturinn hafði unnið samviskusamlega sitt verk á jólaföstunni fyllti fjöldi lamba tugi tvo og ánægja með afraksturinn og uppsveifluna allsráðandi og ekki hvað síst hveru merkilegur gripur hrúturinn var. Við fráfall Mjallhvítar rétt eftir burð tók hann að sér tvílembinga og ól undir sér allt sumarið og skilað 40 kílóum að keti í bú. Að hausti sama ár er ánægjan með búskapinn alger en Adam var ekki lengi í Paradís. Bréf berst frá landbúnaðarráðuneytinu þar sem gerð er grein fyrir að við reglubundið búfjáreftirlit í Skagafirði hafi komið í ljós að 11 kindur væru á vetrarfóðrun, um brot á áður gerðum samningi að ræða og Birni gert að bregðast tafarlausst við. Nú voru góð ráð dýr, lögbrot hafði átt sér stað, fengitími framundan og sláturhúsin lokuð!!! Bréf var ritað í örvæntingu til Landbúnaðarráðuneytis og beðist lausnar fyrir hrútinn fam yfir fengitíma, þetta voru nú bara nokkrar vikur. Svar ráðuneytisins til Björns bónda við erindi hans var meðal annars að hrúturinn væri kind...engin miskun. Leitað var til lærðra manna og kom í ljós að ekki var undan komist að hlýða lögum. ljóst var að hrúturinn var líka kind en tekið skal fram með tilkkomu hans var ekki ætlunin að brjóta lög. Hreint og klrát gáleysi. Ár leið og annað og enn bárust bréf frá eftirliti ráðuneytisins þrátt fyrir ekkert búfjáreftirlit og andlát Alhvítar og fráfall Snjóhvíts og bústofninn komin niður í 8 kindur. Ekki verður fjölyrt um endalok málsins en allt fór vel að lokum. Reglurnar í kringum sauðfárbúskapinn eru oft á tíðum meiri en í kringum aðalbúgreinina hrossarækt og höfum við afskaplega gaman af og erum nú að veltast með mál er varðar reglur um merkingu búfjár og getur vel verið að sú saga verði sögð síðar. Frjáls erum við í dag með fjöda kindanna, kvöðinni var aflétt hið fræga ár 2007 og ráðum við alveg hvað kindurnar eru margar. Ekki kemur fram í skrifum þessum hvort um last eða lof eftirlitsins er að ræða en ef eftirlit með bönkunum hefði verið eins ábyggilegt og með einni kind norður í Skagafirðir væri ástandi í landinu okkar fagra efalaust betra.
Í reglugerð um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki sauðfjár segir í 6. gr. Seljendur greiðslumarks skulu
undirgangast kvöð um að framleiða ekki sauðfjárafurðir til ársloka 2007.
Þeim er þó heimilt að halda allt að 10 vetrarfóðraðar kindur enda séu
afurðir þeirra til eigin nota, sjá: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/upplysingar/bunadarmal/nr/5282